Óska eftir frekari viðræðum við Samkeppniseftirlitið um kaup á Heimsferðum

Úrval-Útsýn er stærsta ferðaskrifstofan innan Ferðaskrifstofu Íslands.

Í nærri átta mánuði hefur Samkeppniseftirlitið haft til rannsóknar fyrirhuguð kaup Ferðaskrifstofu Íslands á rekstri Heimsferða. Rannsóknin var á lokastigi en nú hefur Ferðaskrifstofa Íslands afturkallað samrunatilkynningu sína samkvæmt því sem segir á vef Samkeppniseftirlitsins. 

Þar kemur jafnframt fram að afturköllunin feli í sér að umræddu máli sé lokið án ákvörðunar og að samruni Ferðaskrifstofu Íslands og Heimsferða geti ekki komið til framkvæmda að óbreyttu. Ferðaskrifstofa Íslands rekur Úrval-Útsýn, Plúsferðir og Sumarferðir.

„Samrunaaðilar hafa hins vegar upplýst Samkeppniseftirlitið um að þeir hyggist tilkynna aftur um samrunann á breyttum grunni og leggja til skilyrði sem eytt geta mögulegum samkeppnishindrunum vegna samrunans. Um er að ræða tillögur sem ekki voru settar fram við fyrri meðferð málsins og hefur eftirlitinu því ekki gefist tækifæri til þess að taka afstöðu til þeirra,“ segir í frétt eftirlitsins.

Sem fyrr segir hefur samruninn verið til skoðunar allt frá því í byrjun árs og segir Samkeppniseftirlitið að rannsóknin á málinu hafi verið umfangsmikil. Það var svo þann 10. júní sl. sem frummat um að samruninn væri skaðlegur var birtur samrunaaðilum.

Þessu mati andmæltu þeir en settu fram tillögur að skilyrðum sem Samkeppniseftirlitið mat ófullnægjandi, að undangenginni rannsókn.

„Með því að afturkalla samrunatilkynningu hafa samrunaaðilar komið í veg fyrir mögulega íhlutun af hálfu Samkeppniseftirlitsins með ógildingu samruna. Þess í stað hyggjast samrunaaðilar láta reyna á hvort unnt sé að heimila samrunann á grundvelli nýrra tillagna að skilyrðum sem eytt geta mögulegum samkeppnishindrunum. Verður meðferð þess máls hraðað eins og kostur er,“ segir að lokum í frétt á vef Samkeppniseftirlitsins.