Setja aftur Íslandsflug frá Stokkhólmi á dagskrá

Horft yfir Stokkhólm. Mynd: Henrik Trygg

Þotur SAS fljúga til Keflavíkurflugvallar allt árið um kring frá bæði Ósló og Kaupmannahöfn. Stjórnendur þessa stærsta flugfélags Norðurlanda hafa hins vegar séð lítinn hag í því að fljúga hingað frá Stokkhólmi. Ein og ein sumarvertíð hefur verið látinn duga.

Og samkvæmt áætlun félagsins fyrir næsta sumar er gert ráð fyrir að bjóða upp á þrjár ferðir í viku til Íslands frá Arlanda flugvelli í Stokkhólmi.

Flogið verður þrisvar sinnum í viku frá 26. júní til 3. ágúst.

Icelandair er aftur á móti mun stórtækara í flugi milli Íslands og Stokkhólms með daglegar brottfarir allt árið um kring. Wow Air spreytti sig á flugi til sænsku borgarinnar á sínum tíma en dró sig svo út af þeim markaði. Forsvarsmenn Play virðast að sama skapi ekki horfa til Svíþjóðar.