Starfsmannahópur Play tvöfaldast

Play verður með sex þotur í flota sínum næsta vor og þá þarf fleiri flugfreyjur- og flugþjóna til starfa. MYND: PLAY

Störf fyrir um eitt hundrað flugfreyjur og flugþjóna hjá Play eru nú laus til umsóknar. Um er að ræða bæði framtíðar- og sumarstörf frá og með næsta vori. Þessu til viðbótar verður í næstu viku auglýst eftir fimmtíu flugmönnum. Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að með þessu tvöfaldist starfsmannahópurinn hjá Play.

„Play mun bæði ráða flugliða með og án reynslu. Áhafnir Play hafa vakið verðskuldaða athygli á áfangastöðum félagsins með látlausum og þægilegum einkennisklæðnaði sem sendir skýr skilaboð um þægilega þjónustu Play og andann á vinnustaðnum þar sem leikgleðin er í fyrirrúmi,“ segir í tilkynningu.

Þar er jafnframt haft eftir Birgi Jónssyni, forstjóra flugfélagsins, að áætlanir Play hafi verið varfærnar við ríkjandi aðstæður en skýr hraustleikamerki í ferðaþjónustunni, auk breytinga á sóttvarnarráðstöfunum, geri það að verkum að nú sé tímabært að manna nýjar þotur fyrir næsta sumar.

Play gerir ráð fyrir að sex þotur verði í flota félagsins frá og með næsta vori en þær eru þrjár í dag.

—–

30 daga áskrift á 300 krónur
Stór hluti af greinum Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Þú færð fullan aðgang í 30 daga fyrir aðeins 300 kr. með því að nota afsláttarkóðann „300“ þegar þú pantar áskrift hér. Að þeim tíma loknum er greitt fullt gjald (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja áskriftinni upp.