Svona er staðan í keppni íslensku flugfélaganna í Salzburg

Horft yfir Salzburg. Mynd: Anthony Hill / Unsplash

Áætlunarflug til Salzburg í Austurríki var fastur liður í flugáætlun Wow Air yfir háveturinn. Þar með komust íslenskir skíðakappar með einfaldari hætti upp í skíðabrekkurnar við fæðingarborg Mozart. Stjórnendur Play sáu svo tækifæri í að fylla skarðið sem Wow Air skildi eftir sig og hófu sölu á farmiðum til Salzburg um miðjan júní. Tveimur mánuðum síðar fylgdi Icelandair í kjölfarið en stjórnendur þess félags gera ráð fyrir lengri vertíð í Austurríki en starfsbræður þeirra hjá Play.

Hjá báðum félögum verða brottfarir frá Keflavíkurflugvelli á laugardagsmorgnum og því flogið heim frá Salzburg á sama tíma. Að því leyti er enginn munur á félögunum tveimur. Fargjöldin eru hins vegar töluvert ólík.

Í öllum tilvikum eru þau mun lægri hjá Play en Icelandair. Þar hefur bókunarstaðan líklega töluvert að segja og eins sú staðreynd að systurfélag Icelandair, ferðaskrifstofan Vita, nýtir þessar ferðir til að koma sínum viðskiptavinum á skíði til Austurríkis. Icelandair þarf því ekki að selja öll sætin sjálft í vélarnar en það verður Play hins vegar að gera.

Hafa ber í huga að hjá báðum flugfélögum þurfa þeir sem kaupa ódýrasta miðann að greiða aukalega fyrir innritaðan farangur og eins verður að greiða aukalega fyrir skíðin. Þar er verðskrá flugfélaganna líka ólík. Play rukkar meira fyrir flutning á skíðum á meðan töskugjaldið er hærra hjá Icelandair eins og sjá má hér fyrir neðan.

Þar sést líka að þær vikur sem Icelandair situr eitt að markaðnum þá eru fargjöldin nokkru hærri en Play rukkar. Það er kannski vísbending um að Play gæti fjölgað sínum ferðum til Salzburg en Wow Air hafði þann háttinn á að hefja flug þangað fyrir jól.

—–

30 daga áskrift á 300 krónur
Stór hluti af greinum Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Þú færð fullan aðgang í 30 daga fyrir aðeins 300 kr. með því að nota afsláttarkóðann „300“ þegar þú pantar áskrift hér. Að þeim tíma loknum er greitt fullt gjald (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja áskriftinni upp.