Wizz Air vildi taka yfir keppinautinn

Þotur Wizz Air og easyJet við flugstöðina í Luton. Mynd: Luton Airport

Það var einhugur í stjórn easyJet að hafna nýverið „lágu og skilyrtu tilboði“ í allt hlutafé félagsins. Þetta kom fram í tilkynningu frá flugfélaginu nú í morgun. Þar segir jafnframt að tilboðið hafi verið dregið tilbaka.

Ekki kemur fram hver bauð en samkvæmt heimildum fréttaveitunnar Bloomberg var tilboðið frá Wizz Air, einum helsta keppinaut easyJet.

Staða þessara tveggja félaga er ólík því segja má að easyJet sé í töluverðri vörn á meðan Wizz Air sækir fram þessa dagana. Fjárhagsstaða þess fyrrnefnda er enda veikari og í tilkynningu morgunsins segir að ætlunin sé að bjóða út nýtt hlutafé upp á 1,2 milljarða punda. Það jafngildir um 210 milljörðum íslenskra króna.

Í því samhengi má rifja upp að árið 2005 voru vangaveltur á breskum fjármálamarkaði um að hið íslenska FL-Group hyggðist gera tilraun til að taka yfir easyJet. FL-Group eignaðist nærri 17 prósent hlut í félaginu en samningaviðræður við stofnanda easyJet og stærsta hluthafann skiluðu engu. Að lokum seldi Fl-Group sinn hlut með miklum hagnaði.

Bæði easyJet og Wizz Air hafa um árabil verið stórtæk í flugi til Íslands og bjóða bæði upp á áætlunarflug hingað frá Luton flugvelli við Lundúnir.