10 fjölmennustu þjóðirnar í hópi ferðamanna

Í sumarbyrjun var um annar hver ferðamaður hér á landi bandarískur. Núna er hlutfallið komið niður í rúman fjórðung. MYND: ICELAND.IS

Það voru 108 þúsund erlendir farþegar sem flugu frá Keflavíkurflugvelli í september. Flestir voru bandarískir eða þrjátíu þúsund talsins. Þar á eftir komu fjórtán þúsund Þjóðverjar en í næstu sætum voru Bretar, Frakkar, Ítalir og Pólverjar eins og sjá má hér fyrir neðan. Þessi talning er notuð til að meta fjölda ferðamanna hér á landi í hverjum mánuði fyrir sig.

Í september fyrra þá voru erlendu brottfararfarþegarnir rétt um tíu þúsund en aftur á móti 184 þúsund í september árið 2019.

Frá áramótum hafa um 445 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi sem er 3,6 prósent fækkun miðað við sama tímabil í fyrra. Þá voru brottfarir erlendra farþega um 461 þúsund en í samanburði við árið 2019 þá nemur fækkunin 71 prósenti.