2,5 milljarða króna hagnaður

Mynd: Icelandair

Icelandair Group skilaði 2,5 milljarða króna hagnaði á þriðja ársfjórðungi en útbreiðsla Delta afbrigðisins hafði neikvæð áhrif á bæði sætanýtingu og einingatekjur flugfélagsins í september samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Einingatekjur félagsins fyrstu níu mánuði ársins eru í dag þremur prósentum hærri en spá félagsins fyrir allt árið 2021 gerði ráð fyrir. Aftur á móti er einingakostnaðurinn 19 prósentum hærri en áætlað var í fjárfestakynningu í tengslum við hlutafjárútboð félagsins sl. haust.

Lausafjárstaða flugfélagsins hefur styrkst að undanförnu og nam 57 milljörðum króna í lok fjórðungsins. Handbært fé frá rekstri nam 3,2 milljörðum króna samanborið við neikvætt handbært fé frá rekstri að fjárhæð 11,1 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi 2020.

Umsvif samsteypunnar jukustu umtalsvert síðasta ársfjórðungi því þá flugu þotur félagsins til þrjátíu og fjögurra áfangastaða í heildina. Á sama tíma í fyrra var framboðið miklu minna.

Í innanlandsflugi hefur farþegafjöldi þegar náð því sem hann var fyrir Covid og voru farþegar um 67 þúsund á fjórðungnum.

Mikill uppgangur hefur verið í fraktflutningum og á þriðja ársfjórðungi skilaði Icelandair Cargo hærri tekjum og flutningsmagn var meira en fyrir Covid faraldurinn. Fraktflutningar milli Evrópu og Norður Ameríku jukust töluvert á fjórðungnum og voru um 10% af heildarflutningum samanborið við 3% á árinu 2020.

„Eftir aukningu í bókunum fyrri hluta sumars, hægði á bókunum í ágúst og september vegna áhrifa Delta afbrigðisins. Aðstæður hafa batnað á ný og hefur bókunarflæði verið sterkt undanfarnar vikur. Opnun Bandaríkjanna fyrir evrópska ferðamenn er mjög jákvætt skref í áframhaldandi uppbyggingu félagsins þar sem allir markaðir þess verða opnir í kjölfarið. Flugframboð félagsins á þriðja ársfjórðungi var um 50 prósent af framboði félagsins á sama tíma 2019. Í fjórða ársfjórðungi mun félagið auka framboð sitt í um 65% af framboðinu 2019 og fljúga til 11 áfangastaða í Norður Ameríku og 15 í Evrópu. Áhrifa heimsfaraldursins og tilheyrandi ferðatakmarkana mun þó halda áfram að gæta og hátt eldsneytisverð mun hafa neikvæð áhrif á afkomu félagsins í fjórða ársfjórðungi,“ segir í tilkynningu frá flugfélaginu.

Þar er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair samsteypunnar, að það sé ánægjulegt að félagið skuli nú hagnaði í fyrsta sinn í tvö ár og þakkar hann starfsfólki fyrir úthald og útsjónarsemi við að bregðast hratt við breytingum á mörkuðum og koma auga á öll möguleg tækifæri.