Áfram fækkar þýsku áfangastöðunum

Það er komið að síðustu ferð Wizz Air frá Íslandi til Dortmund. MYND: WIZZ AIR

Síðasta áætlunarflug Wizz Air frá Íslandi til þýsku borgarinnar Dortmund er á dagskrá á morgun, sunnudag. Þar með fækkar þýsku borgunum sem flogið er beint til frá Keflavíkuflugvelli niður í þrjár: Berlín, Frankfurt og Munchen. Fyrir næsta sumar bætast Dusseldorf og Hamborg við þann lista.

Þegar mest lét voru þýsku borgirnar sem hægt var að fljúga til héðan ellefu talsins. Þeim fækkaði hins vegar töluvert með gjaldþrotum Airberlin og Germania. Íslandsflug Eurowings er líka mun takmarkaðra en það var áður.

Áætlunarflug Wizz Air frá Dortmund á sér ekki langa sögu því það hófst ekki fyrr en í ágúst 2020. Ekkert annað flugfélag hefur haldið úti ferðum frá Dortmund til Íslands.