Bætist í hópinn hjá Play

Rakel Eva Sævarsdóttir hefur gengið til liðs við Play. Mynd: Play

Rakel Eva Sævarsdóttir hefur verið ráðin forstöðumaður sjálfbærni- og samfélagsábyrgðar hjá flugfélaginu Play. Hún er með reynslu á þessu sviði frá Marel og Deloitte.

„Við finnum greinilega fyrir kröfu frá viðskiptavinum, fjárfestum og starfsfólki um að áhersla sé lögð á þennan málaflokk. Play, sem nýtt fyrirtæki, hefur hér sjaldgæft tækifæri til að setja þessi mál á oddinn strax frá upphafi og það er mikill fengur fyrir fyrirtækið að fá Rakel Evu, sem hefur verið áberandi talsmaður þessara mála, til að leiða þennan málaflokk hjá okkur. Ég er mjög spenntur að fá hana í liðið,“ skrifar Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, í tilkynningu.

Rakel sjálf segir þar að flugiðnaðurinn standi frammi fyrir miklum áskorunum og tækifærum þegar kemur að sjálfbærnitengdum málum.

„Þau flugfélög sem ætla sér að vera þátttakendur á markaðnum eftir fimm til tíu ár þurfa að taka þennan málaflokk föstum tökum og móta sér skýr, mælanleg og auðskiljanleg markmið á þessu sviði. Play ætlar að vera leiðandi í þessum málum og ég er gríðarlega spennt og ekki síður stolt af því að fá að taka þátt í þeirri vegferð með félaginu og því frábæra fólki sem þar starfar.“