Beint flug til Feneyja næsta sumar

Horft yfir Feneyjar. Mynd: canmandawe / Unsplash

Nú í vetur mun Wizz Air halda úti áætlunarflugi hingað frá Napólí, Róm og Mílanó. Aldrei áður hefur úrvalið af beinu flugi frá Keflavíkurflugvelli til Ítalíu verið svo mikið. Icelandair hefur til að mynda aldrei boðið upp á ferðir til Ítalíu yfir vetrarmánuðina.

Wizz Air eru hins vegar í miklu kapphlaupi við Ryanair um ítalska flugmarkaðinn og hefur nú ákveðið að opna starfsstöð í Feneyjum til viðbótar við allar hinar sem hafa verið opnaðar hér og þar á Ítalíuskaganum nú í heimsfaraldrinum.

Og Ísland er meðal þeirra áfangastaða sem flogið verður til frá Feneyjum og er jómfrúarferðin á dagskrá í apríl á næsta ári. Flogið verður tvisvar í viku og lagt í hann á kvöldin frá Keflavíkurflugvelli og ekki lent í ítölsku borginni fyrir en klukkan þrjú um nóttina.

Ódýrasta farið í apríl til Feneyja kostar í dag 13.420 krónur en þá fylgir aðeins lítil handfarangurstaska með.


Viltu prófa áskrifti að Túrista? Þú færð 90 daga aðgang á 900 krónur með því að nota afsláttarkóðann „900″ þegar pöntuð er áskrift hér. Í framhaldinu fullt verð en alltaf hægt að segja upp.