Boða nærri tvöfalt hærri flugvallargjöld

Frá Heathrow í London. Mynd: London Heathrow

Áður en kórónuveirufaraldurinn lamaði flugsamgöngur um heim allan þá var Heathrow í London fjölfarnasti flugvöllur Evrópu. Samdrátturinn þar á bæ hefur hins vegar verið meiri síðustu misseri en til að mynda á Schiphol í Amsterdam og Charles de Gaulle í París. Tapreksturinn hefur því verið gríðarlegur og í fyrra nam tap Heathrow um tveimur milljörðum punda. Það jafngildir um 355 milljörðum króna.

Af þeim sökum horfa eigendur Heathrow nú til þess að hækka flugvallargjöldin um allt að níutíu prósent samkvæmt frétt Financial Times.

Stjórnendur British Airways og fleiri flugfélaga hafa lýst yfir mikilli andstöðu við þessi áform og það hefur líka forsvarsfólk IATA, alþjóðasamtaka flugfélaga, gert. En framkvæmdastjóri IATA er Willie Walsh, fyrrumst forstjóri British Airways.

Samkvæmt frétt Financial Times þá telja forsvarsmenn Heathrow að boðuð verðhækkun geti leitt til þess að meðalfargjöldin, til og frá flugvellinum, geti hækkað um allt að fjögur prósent.

Svo mikil hækkun gæti komið niður á útgerð Icelandair í Heathrow enda hefur félagið flogið þangað að jafnaði tvisvar á dag um langt árabil.