Bréfin falla í kjölfar ummæla forstjórans

Hollendingurinn Anko van der Werff tók nýverið við stjórnartaumunum í SAS.

„SAS berst fyrir tilveru sinni. Þegar ég horfi til þess hvernig markaðurinn er, hvernig viðskiptavinirnir hafa breyst og hversu mikið við skuldum þá er ljóst að við verðum að gera hlutina allt öðruvísi en áður.“

Þetta hafði danska viðskiptasíðan Finans eftir Anko van der Werff, nýjum forstjóra SAS, í morgun og óhætt er að segja að orð forstjórans hafi farið öfugt ofan í fjárfesta. Gengi hlutabréfa í SAS hefur nefnilega lækkað um 14 prósent það sem af er degi.

Ummælin koma þó ekki eins og þruma úr heiðskýru lofti því stjórnendur SAS hafa boðað uppstokkun á kjaramálum áhafna félagsins við litla hrifningu flugmanna.

Ætlunin er að færa núgildandi ráðningasamninga yfir í dótturfélög SAS og þar af eitt sem er skráð á Írlandi. Með þessu á að draga úr launakostnaði og um leið gera SAS kleift að keppa við lágfargjaldaflugfélög sem hafa sótt af enn meiri krafti inn á skandinavíska markaðinn að undanförnu. Þannig er Ryanair nú í vetur að hefja flug frá Arlanda flugvelli í Stokkhólmi í fyrsta sinn.

Danska og sænska ríkið eiga hvort um sig 21,8 prósent hlut í SAS.