Ennþá langt í 2019 tölurnar

Að jafnaði voru um sex af hverjum tíu sætum skipuð farþegum í flugi Icelandair í september. MYND: ICELANDAIR

Yfir 212 þúsund farþegar flugu með Icelandair í september síðastliðnum samanborið við tæplega 25 þúsund í sama mánuði í fyrra. Í september 2019 voru þeir hins vegar 447 þúsund talsins eða ríflega tvöfalt fleiri en að þessu sinni.

Það hefur komið fyrir nú í heimsfaraldrinum að farþegar Icelandair í innanlandsflugi hafa verið fleiri en í millilandafluginu. Svo er þó ekki lengur. Í september voru farþegarnir í alþjóðafluginu 191 þúsund en tæplega 22 þúsund nýttu sér ferðir Icelandair milli íslenskra flugvalla.

Sætanýting í millilandaflugi var 62 prósent og í tilkynningu frá Icelandair segir að óvissa vegna Delta afbrigðis kórónuveirunnar hafi haft neikvæð áhrif á nýtinguna. Að auki hefur Icelandair nýtt breiðþotur í stað smærri flugvéla á mörgum flugleiðum vegna mikillar eftirspurnar eftir fraktrými. 

Félagið flutti til að mynda 11 þúsund tonn í september 2019 en þau voru um 13 þúsund í síðasta mánuði.

„Flugstarfsemin hefur jafnt og þétt færst nær því sem hún var fyrir heimsfaraldur og vetraráætlunin okkar er um það bil tveir þriðju hlutar af áætlun ársins 2019. Við höfum lagt áherslu á að nýta sveigjanleika félagsins til að auka jafnt og þétt við starfsemina á liðnum mánuðum og mætt þeirri eftirspurn sem hefur skapast samhliða því sem rýmkað er á ferðatakmörkunum. Nú hafa bandarísk stjórnvöld tilkynnt um fyrirhugaða opnun landamæra sinna fyrir evrópska ferðamenn og lagt jákvæðara mat á stöðu faraldursins á Íslandi. Þetta eru mjög jákvæðar fréttir og verður þá á ný opið fyrir bólusetta farþega á milli allra okkar markaðssvæða í fyrsta sinn síðan ferðatakmarkanir hófust. Það ásamt minnkandi óvissu hefur nú þegar haft jákvæð áhrif á bókunarstöðu og vænta sætanýtingu næstu mánaða,“ skrifar Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair samteypunnar, í tilkynningu.


Þú getur prófað áskrift að Túrista í 30 daga fyrir aðeins 300 kr. með því að nota afsláttarkóðann „300″. Fullt verð (2.659 kr.) eftir það en alltaf hægt að segja upp. SMELLTU HÉR