Fá sex Max þotur fyrir næstu sumarvertíð

Áhafnir Flyr munu fljúga nýjum Max þotum næsta sumar. MYND: FLYR

Norska flugfélagið Flyr hóf áætlunarflug í vor og þá með eldri gerðum af Boeing 737 flugvélum. Næsta vor munu hins vegar sex nýjar Max 8 þotur bætast í flotann og félagið hefur vilyrði fyrir leigu á fjórum þess háttar þotum í viðbót á þarnæsta ári.

Allar þessar tíu þotur eru í eigu Air Lease Corporation, flugvélaleigunnar sem stóð í málaferlum við Isavia vegna þotu sem Wow Air hafði haft til afnota. Stjórnendur Isavia kyrrsettu hana vegna tveggja milljarða króna skuldar flugfélagsins á Keflavíkurflugvelli. Því máli tapaði Isavia og stefndi í kjölfarið ríkinu vegna málsins og er sú deila ennþá óútkljáð.

Á sama tíma og Flyr hefur tryggt sér tíu Max þotur þá leita stjórnendur Icelandair að alla vega tveimur flugvélum af þessari gerð. Það kom nefnilega fram í máli Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, á síðasta afkomufundi að félagið vildi bæta við flota sinn tveimur Max þotum til viðbótar við þær sem fyrir eru á næsta ári.

Ekki hefur meira spurst til þeirra áforma en í ljósi málaferla Isavia og Air Lease Corporation um árið þá þykir stjórnendum flugvélaleigunnar kannski ákjósanlegra að leigja þotur til norskra flugrekenda en íslenskra.