Færri í þotunum sem flugu til landsins

Það voru 326 þúsund farþegar sem áttu leið um Flugstöð Leifs Eiríkssonar í september eða 21 prósent færri en í ágúst. Áætlunarferðunum fækkaði hlutfallslega nokkru minna á milli mánaða eða um 13 prósent samkvæmt talningu Túrista.

Það má því ljóst vera að sætanýtingin í flugi til og frá Keflavíkurflugvelli dróst saman í september. Til marks um það þá var nýtingin hjá Icelandair 72 prósent í ágúst en 62 prósent í september samkvæmt tölum félagsins.

Hjá Play fór nýtingin þó upp á við eða úr 46 prósentum og upp í 52 prósent.

Umsvif íslensku félaganna eru þó ólík því brottfarir á vegum Icelandair voru að jafnaði 26 á degi hverjum í síðasta mánuði á meðan Play stóð fyrir að meðaltali 2,5 ferðum á dag frá Keflavíkurflugvelli.


Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð 30 daga áskrift fyrir 300 kr. með því að nota afsláttarkóðann „300″. Í framhaldinu fullt verð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.
Smelltu hér til að gerast áskrifandi