Gefa út dagsetninguna mjög fljótlega

newyork loft Troy Jarrell
Í næsta mánuði geta Íslendingar á ný ferðast til New York. Mynd: Troy Jarrell / Unsplash

Bandaríkin ætla í nóvember að afnema bann við komu erlendra ferðamanna til landsins. Þetta var tilkynnt fyrir nærri fjórum vikum síðan en ennþá liggur ekki fyrir hvenær í næsta mánuði þessi breyting gengur í gildi. Talsmaður Hvíta hússins sagði þó á sínum tíma að það yrði snemma í nóvember.

Nú herma heimildir Reuters að tilkynnt verði mjög fljótlega hvaða dag bólusettir Evrópubúar geti á ný ferðast til Bandaríkjanna.

Það hafa verið vangaveltur uppi um hvort bandarísk stjórnvöld muni hleypa öllum bólusettum ferðamönnum yfir landamærin eða eingöngu þeim sem hafa fengið bóluefni sem eru með markaðsleyfi vestanhafs. Nú liggur hins vegar fyrir að horft verður til lista Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar líkt og US Today greindi frá á mánudaginn.

Þar með þurfa þeir sem hafa verið bólusettir með AstraZeninca ekki að vera í vafa um það lengur um hvort þeir fái líka að ferðast til Bandaríkjanna eftir að ferðabannið verður fellt út gildi í næsta mánuði.