Gera ekki kröfu um að börn og unglingar hafi verið bólusett fyrir ferðalagið

Forseti Bandaríkjanna gaf endanlega út í gær hvaða reglur gilda þegar landið opnar á ný í næsta mánuði. Mynd: Neonbrand / Unsplash

Íbúar Kína, Indlands og flestra landa Evrópu fá að ferðast til Bandaríkjanna á ný frá og með mánudeginum 8. nóvember. Frá þessari breytingu var formlega gengið í gær þegar Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, skrifaði undir nýja reglugerð sem felldi úr gildi ferðabannið sem forveri hans, Donald J. Trump, setti í mars í fyrra.

Það verða þó eingöngu ferðamenn sem hafa að fullu verið bólusettir fyrir Covid-19 sem fá að heimsækja Bandaríkin en börn 18 ára og yngri eru undanþegin þeirri reglu samkvæmt frétt Reuters.

Einnig var gerð undanþága frá þessari kröfu gagnvart ferðalöngum frá fimmtíu löndum þar sem innan við tíund landsmanna hafa verið bólusettir. Allir þeir sem ætla að dvelja í Bandaríkjunum í meira en tvo mánuði þurfa hins vegar að láta bólusetja sig á meðan á dvölinni stendur.