Hagnaður hjá Norwegian

Rekstur Norwegian flugfélagsins stóð ekki undir sér á þriðja fjórðungi ársins því rekstrartapið nam 296 milljónum norskra króna. Það jafngildir um 4,6 milljörðum íslenskra króna. Aftur á móti skilaði félagið hagnaði þegar horft er til tekjufærslna sem rekja má til fjárhagslegrar endurskipulagningar flugfélagsins nú í heimsfaraldrinum. Heildarniðurstaðan varð því hagnaður upp á 169 milljónir norskra króna eða 2,6 milljarða króna.

Lausafjárstaða Norwegian hefur þrátt fyrir rekstrartap styrkst að undanförnu því í lok annars ársfjórðungs nam hún 7,5 milljörðum norskra króna en var 7,6 milljarðar í lok fjórðungsins sem lauk um síðustu mánaðamót.

Í uppgjöri norska flugfélagsins kemur fram að hækkandi olíuverð geti sett strik í reikninginn og dregið úr væntingum um rekstrarbata og þá sérstaklega á kostnaðarhliðinni.

„Blessunarlega eru keppinautar okkar í sömu stöðu,“ sagði Geir Karlsen, forstjóri Norwegian, á fundi með fjárfestum í morgun. Vísaði hann þar til þess að Norwegian líkt og mörg önnur flugfélög væri í dag að kaupa olíu á markaðsvirði en hefðu ekki tryggt sér ákveðið magn langt fram í tímann eins og tíðkaðist fyrir heimsfaraldur.

Karlsen sagði engin áform um að leggja sérstakt olíugjald ofan á fargjöldin en útilokaði þó ekki að Norwegian myndi þurfa að grípa til einhverja aðgerða ef olíuverð verður áfram hátt á næsta ári.

Líkt og Túristi fjallaði um í síðustu viku þá mun Norwegian gera hlé á ferðum sínum til Íslands í vetur vegna lítillar eftirspurnar.