Play aldrei verið verðmætara

Mynd: London Stansted

Gengi hlutabréfa í Play hefur hækkað um nærri fjórðung í vikunni og er í dag 26 krónur á hvern hlut. Þar með er markaðsvirði félagsins komið upp í 18,2 milljarða króna og hafa fjárfestar ekki áður metið félagið jafn verðmætt.

Í lokuðu hlutafjárútboði Play í vor var hver hlutur seldur á 15,75 krónur og þar fékk félagið inn um sex milljarða króna í hlutafé. Fjórir milljarðar bættust við í almennu hlutafjárútboði í sumarbyrjun en þá var gengi bréfanna á bilinu 18 til 20 krónur á hlut.

Miðað við hlutabréfaverðið í dag þá hafa þeir sem tóku þátt í fyrrnefndum útboðum ávaxtað sitt fé um 30 til 65 prósent að því gefnu að þeir selja bréf sín á því verði sem býðst í dag.

Lengi framan af var velta meða hlutabréf Play lítil en á því hefur orðið breyting nú í vikunni. Þannig hefur um 8 prósent af öllu hlutafé í félaginu skipt um hendur síðan í byrjun vikunnar.

Verðmæti Icelandair Group hefur einnig hækkað síðustu daga en þó hlutfallslega mun minna en Play. Í dag er markaðsvirði Icelandair Group 54,8 milljarða króna sem er hækkun um rúm fjögur prósent frá því á mánudagsmorgun þegar Kauphöllin opnaði.

Í næstu viku munu flugfélögin tvö birta upplýsingar um farþegafjölda og sætanýtingu í september. Í ágúst var sætanýtinging 46,4 prósent hjá Play en forsvarsfólk félagsins hefur gefið út að útlit sé fyrir að nýtingin í september verði hærri. Í því samhengi má þó rifja upp að félagið fækkaði flugferðum í mánuðinum.

Sætanýtingin hjá Icelandair í ágúst var 71,7 prósent.

—–

90 daga áskrift á 900 krónur
Stór hluti af greinum Túrista er aðeins fyrir áskrifendur. Þú færð fullan aðgang í 90 daga fyrir aðeins 900 kr. með því að nota afsláttarkóðann „900“ þegar þú pantar áskrift hér. Að þeim tíma loknum er greitt fullt mánaðargjald (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja áskriftinni upp.