Play til sex spænskra sólarstaða

Frá Mallorca. Mynd: Lindsay Lenard / Unsplash

Play hefur bætt Mallorca og Malaga við sumaráætlun sína fyrir næsta ár. Þar með selur félagið nú flug til sex áfangastaða á Spáni. Barcelona, Tenerife, Alicante hafa verið hluti af flugáætlun félagsins frá upphafi og það styttist í fyrstu ferðirnar til Las Palmas á Kanarí.

Ferðirnar til Mallorca verða á miðvikudögum í sumar og til Malaga verður flogið á sunnudögum.

„Það er óhætt að segja að Íslendingar njóti sín vel á Spáni en frá því Play hóf miðasölu varð strax gríðarleg eftirspurn eftir farmiðum til Spánar. Við finnum einnig vel fyrir áhuga Spánverja á að koma til Íslands. Nýju áfangastaðirnir gefa þeim eldri ekkert eftir enda eru þetta sannkallaðar paradísarborgir og við hlökkum til að fljúga sólþyrstum Íslendingum á nýja staði,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningu.

Play verður ekki eitt um flug héðan til Mallorca því þangað stefna systurfélögin Icelandair og Vita líka næsta sumar.