Segir ríflega 100 milljarða útflutningstekjur í hættu

Aukatakmarkanir á ferðir bólusettra ferðamanna hingað til lands draga úr eftirspurn eftir Íslandsferðum um 10 til 30 prósent. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. Vísar hann þar til upplýsinga frá flugfélögunum á Keflavíkurflugvelli.

Jóhannes segir að miðað við þessi neikvæðu áhrif þá geti þjóðarbúið farið á mis við 39 til 118 milljarða króna í útflutningstekjur á næsta ári. Horfir hann þar til nýrrar spár Landsbankans um að ferðamenn hér á landi verði ein og hálf milljón á næsta ári og meðaleyðslan verði á pari við það sem var í júlí 2021.

„Til samanburðar er gert ráð fyrir að stærsta loðnuvertíð í tuttugu ár muni geta skilað samfélaginu 50 til 80 milljörðum í útflutningstekjur,“ bætir Jóhannes við.

„Haldi Ísland áfram að leggja aukatakmarkanir á bólusetta ferðamenn, eitt EES ríkja, fylgir því óhjákvæmilega beint verðmætatap fyrir samfélagið upp á tugi milljarða – jafnvel jafngildi rúmlega tveggja loðnuvertíða. Taki stjórnvöld ákvörðun um að viðhalda landamæratakmörkunum á bólusetta ferðamenn í vetur er það því svipað og að ákveða að veiða ekki loðnukvótann í vetur og kannski ekki heldur næsta vetur. Þætti slík ákvörðun vera skynsamleg í efnahagslegu samhengi? – Nei, loðnuvertíðinni hefur auðvitað verið fagnað mjög, og það réttilega, einmitt vegna þess að samfélagið þarf sárlega á útflutningstekjum að halda.

Af nákvæmlega sömu ástæðu er efnahagslega skynsamlegt að ferðatakmarkanir á bólusetta erlenda ferðamenn séu þær sömu á Íslandi og í helstu samkeppnislöndum og mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Þar eru nefnilega í húfi að minnsta kosti jafn mikil og líklega mun meiri verðmæti fyrir samfélagið. Þannig er nú það,“ skrifar Jóhannes á Facebook síðu sína.