Stjórnendur Play bregða út af vananum

gautaborg per pixel peterson
Gautaborg er næst fjölmennasta borga Svíþjóðar. Mynd: Pixel Peterson

Þrír áfangastaðir í Skandinavíu bætast við leiðakerfi Play fyrir næstu sumarvertíð. Um er að ræða Stafangur og Þrándheim í Noregi ásamt Gautaborg í Svíþjóð. Allt eru þetta borgir sem Wow Air flaug aldrei til en hingað til hefur Play eingöngu siglt á sömu mið og flugfélag Skúla Mogensen gerði.

En líkt og Túristi rakti nýverið þá eru vísbendingar um sóknarfæri í flugi héðan til skandinavískra borga þar sem Íslendingar eru fjölmennir.

Eins og staðan er núna þá verður Play eitt um ferðirnar til Stafangurs, Þrándheims eða Gautaborgar en félagið á í samkeppni á öllum sínum flugleiðum í dag. Borgirnar þrjár hafa þó af og til verið hluti af sumaráætlun Icelandair.

„Sala á flugmiðum hefur tekið kipp síðustu vikur og við finnum vel að fólk er tilbúið að ferðast. Við erum byrjuð að stækka leiðakerfið okkar og teljum nú tímabært að bjóða viðskiptavinum okkar upp á fleiri valkosti í Skandinavíu en með þessu fjölgum við áfangastöðunum okkar á Norðurlöndunum úr einum í fjóra. Margir Íslendingar eru búsettir á þessum slóðum og við teljum að við getum byggt upp hagkvæma flugáætlun á þessa staði, bæði með eftirspurn frá Íslendingum og heimamönnum,“ skrifar Birgir Jónsson, forstjóri Play, í tilkynningu.


Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð 30 daga áskrift fyrir 300 kr. með því að nota afsláttarkóðann „300″. Í framhaldinu fullt verð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.
Smelltu hér til að gerast áskrifandi