Þoturnar fá nýtt útlit

Forsmekkurinn að því sem koma skal hefur verið gefinn í auglýsingum Icelandair að undanförnu. Samsett mynd

Um árabil hafa Boeing flugvélar Icelandair verið málaðar hvítar, bláar og gular en svo verður ekki mikið lengur.

Því nú er gert ráð fyrir að útlit flugvélanna taki sömu breytingum og gerðar hafa verið á markaðsefni flugfélagsins að sögn Ásdísar Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair. En í nýjum auglýsingum Icelandair er vörumerkið sjálft ekki lengur gult heldur hvítt.

Á þotunum flugfélagsins er vörumerkið hins vegar ennþá gult, bæði á stélinu og eins á vængjunum. Hreyflarnir eru líka málaðir í sama lit en á þessu verða nú gerðar breytingar sem fyrr segir.

Nánari útfærslur á því bíða betri tíma en rifja má upp að Lufthansa flugfélagið fjarlægði gula litinn úr sínu vörumerki fyrir þremur árum síðan og nú eru þotur þýska félagsins bara hvítar og bláar.

Þegar guli liturinn var valinn í merki Icelandair þá var hugsunin sú að hann stæði fyrir eldfjallavirkni Íslands og miðnætursólina. Blái liturinn táknar svo hafið og hvítar merkingar standa fyrir jöklana.

Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð 30 daga áskrift fyrir 300 kr. með því að nota afsláttarkóðann „300″. Í framhaldinu fullt verð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp. Smelltu hér til að gerast áskrifandi