Þriðji framkvæmdastjórinn sem hættir

Birna Ósk Einarsdóttir lætur af störfum hjá Icelandair Group.

Birna Ósk Einarsdóttir, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra sölu- og þjónustusviðs hjá Icelandair Group, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá félaginu á næstunni. Hún hóf störf hjá Icelandair árið 2018 og þá sem framkvæmdastjóri stefnumótunar og viðskiptaþróunar.

Tveir aðrir framkvæmdastjórar Icelandair samsteypunnar hafa að undanförnu sagt stöfum sínum lausum. Fyrst var það Eva Sóley Guðbjörnsdóttir sem hætti í vor og í síðasta mánuði sagði Jens Þórðarson upp.

Í tilkynningu frá Icelandair er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, að hann óski Birnu til hamingju með nýtt tækifæri á erlendri grundu.

„Síðustu fjögur ár hafa verið mögnuð reynsla. Að takast á við miklar áskoranir með framúrskarandi fólki alls staðar í fyrirtækinu með það að markmiði að halda uppi merkjum Íslands alþjóðlega. Ég er þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir þessu mikilvæga hlutverki, fyrir samstarfsfólk mitt og fyrir þá reynslu sem ég hef öðlast á þessum tíma. Það er óneitanlega erfitt að kveðja en á sama tíma mun ég stolt fylgjast með félaginu taka flugið á ný inn í framtíðina,” skrifar Birna Ósk í tilkynningu.