Til Portúgal næsta sumar

Frá Albufeira í Portúgal. Mynd: Dahee Son / Unsplash

Sólþyrstir Íslendingar hafa úr miklu að moða ef ferðinni er heitið til Spánar en aftur á móti hefur úrvalið af strandferðum til Portúgal verið sáralítið. Úr því verður bætt í byrjun næsta sumars því Úrval-Útsýn hefur hefur hafið sölu á ferðum til Faro í Algarve. Fyrsta brottför er þann 7. júní og flogið verður vikulega fram til 9. ágúst.

Flugið til suðurhluta Portúgals er þó ekki eina nýjungin á dagskrá ferðaskrifstofanna því þar verða líka í boði vikulegar ferðir til spænsku sólareyjunnar Mallorca. Þar með harðnar samkeppnin í flugi þangað því Play og systurfélögin Icelandair og Vita sjá einnig tækifæri í bjóða Íslendingum upp á að endurnýja kynni sín af þessum vinsæla sólarstað.

Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval-Útsýn, segist finna fyrir miklum áhuga á sólarlandaferðum og á næstu dögum hefst þar sala á Spánarferðum til Almería og Costa del Sol og eins til Krítar. Fyrsta brottför ferðaskrifstofunnar til grísku eyjunnar verður í lok maí.