Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, ásamt fulltrúum þeirra fyrirtækja sem fengu viðurkenningar. MYND: MN

Fyrir heimsfaraldur kom ferðaþjónustan á Norðurlandi saman einu sinni á ári og hélt uppskeruhátíð. Þess háttar samkomuhald var ekki mögulegt í fyrra en er það nú á nýjan leik. Og um síðustu helgi hittist fagfólk í ferðaþjónustunni fyrir norðan og bar saman bækur sínar og verðlaunaði fyrirtæki og einstaklinga.

Fyrirtæki ársins 2021 var valið SBA Norðurleið fyrir að hafa skapað sér sterka stöðu á markaði og hafa unnið að uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Sproti ársins er 1238: Battle of Iceland en það fyrirtæki var stofnaði árið 2019 og rekur Sögusetrið 1238 sem gagnvirk sýning sem færir viðskiptavini nær sögulegum stóratburðum en hefðbundnar fræðslusýningar.

„Með hjálp nýjustu tækni í miðlun og sýndarveruleika er þeim boðið að taka þátt í átakamestu atburðum Íslandssögunnar og beinlínis stíga inn í sögu Sturlungaaldar. Fyrirtækið hefur sýnt mikinn metnað í stafrænni markaðssetningu og verið mjög sýnilegt á öllum helstu boðleiðum,“ segir í umsögn dómnefndar.

Viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu hlaut Linda María Ásgeirsdóttir sem hefur verið í forsvari fyrir Ferðamálafélag Hríseyjar og rekur núna veitingastaðinn Verbúð 66 í Hrísey. Einnig hefur hún setið í svæðisráði Hríseyjar fyrir Akureyrarbæ og starfað með okkur á Markaðsstofunni í hópi ferðamálafulltrúa.

Í ár var ákveðið að bæta fjórðu viðurkenningunni við. Hvatningarverðlaun ársins 2021 voru veitt Fairytale at Sea en það býður upp á þjónustu sem byggir vel undir ímynd Norðurlands og er orðið þekkt meðal innlendra og erlendra ferðamanna fyrir einstaka upplifun.