Viðurkenning sem auðveldar kynningu á Vestfjörðum

Vestfirðir eru áfangastaður næsta árs hjá Lonely Planet. Mynd: Áfangastaðastofa Vestfjarða

Vestfirðir eru efst á lista yfir svæði til að heimsækja árið 2022 í árlegu vali ferðabókaútgefandans Lonely
Planet yfir lönd, svæði og borgir til að heimsækja árið 2022. Listinn var birtur í gærkvöld.

„Fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á Vestfjörðum fæst ekki jafn glæsileg viðurkenning og Best in
Travel hjá Lonely Planet er. Ég hef oft sagt að Vestfirðir eigi mikið inni þegar að kemur að
ferðaþjónustu og þarna sjáum við það alveg svart á hvítu að þetta einstaka svæði sker sig úr í
samkeppni við alla rómuðustu áfangastaði heimsins,“ segir Díana Jóhannsdóttir hjá
Áfangastaðastofu Vestfjarða.

Spurð um hvaða væntingar hún hafi til verðlaunanna þá telur Díana þau munu hjálpa við alla markaðssetningu, ekki bara á Vestfjörðum heldur á öllu landinu.

„Það birtist auðvitað enginn ferðamaður beint á Vestfjörðum. Þannig að áhrifin verða mest þar, en við vonum einnig að þetta verði til þess að ýta við fjárfestingum á svæðinu því það þarf að verða enn meiri uppbygging í innviðum á Vestfjörðum,“ segir Díana.

Jón Páll Hreinsson, bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar, er líka ánægður með viðurkenninguna frá sérfræðingum Lonely Planet.

„Eftir áföll síðustu ára vegna heimsfaraldurs er svona viðurkenning mikið tækifæri fyrir ferðaþjónustu á Vestfjörðum og liður í því að greinin taki næsta stóra skref framávið. Ferðaþjónustan á Vestfjörðum er að koma sterk til baka eftir heimsfaraldurinn og stefnir hratt uppávið. Saman með uppbyggingu ferðaþjónustusegla eins og á Bolafjalli mun þessi viðurkenning skipta sköpun fyrir vöxt og viðgang ferðaþjónustu á Vestfjörðum,“ segir Jón Páll.

Í tilkynningu er haft eftir Sigríði Dögg Guðmundsdóttur, fagstjóra ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, að toppsætið hjá Lonely Planet komi eiginlega á besta tíma.

„Nú þegar við stöndum frammi fyrir því verkefni að vekja áhuga ferðamanna á Íslandi á ný kjölfar Covid-19 þar sem við munum eiga í harðri samkeppni við önnur lönd,“ segir Sigríður Dögg.