11 þúsund starfsmenn Boeing vilja komast hjá bólusetningu

Starfsmenn Boeing í Bandaríkjunum hafa frest til 4. janúar á næsta ári til að láta bólusetja sig fyrir Covid-19. MYND: BOEING

Níu af hverjum hundrað starfsmönnum flugvélaframleiðandans Boeing í Bandaríkjunum hafa óskað eftir undanþágu frá bólusetningu fyrir Covid-19. Þetta er mun hærra hlutfall en stjórnendur fyrirtækisins reiknuðu með samkvæmt frétt Reuters. Starfsmennirnir bera flestir fyrir sig trúarlegar eða heilsufarslegar ástæður í umsóknum sínum um undanþágu.

Þetta háa hlutfall óbólusettra starfsmanna kemur Boeing í snúna stöðu því samkvæmt tilskipun Joe Biden Bandaríkjaforseta þá ber fyrirtækjum sem sinna verkefnum fyrir hið opinbera að tryggja að starfsmenn hafi verið bólusettir. Bandaríska ríkið er stór viðskiptavinur Boeing enda framleiðir fyrirtækið ekki bara farþegaþotur heldur líka hergögn og geimflaugar.

Boeing hefur gefið starfsmönnum sínum í Bandaríkjunum frest til 4. janúar á næsta ári til að láta bólusetja sig.