Aukið samstarf við JetBlue í Evrópuflugi

Robin Hayes, forstjóri JetBlue og Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. MYND: ICELANDAIR

Icelandair og bandaríska flugfélagið JetBlue hafa aukið samstarf sitt um tengingar á milli leiðakerfa félaganna í Evrópu og Norður-Ameríku. Með samstarfinu geta viðskiptavinir keypt flug með tengingum inn í leiðarkerfi beggja félaga á einum miða og innritað farangur alla leið frá upphafsflugvelli samkvæmt því sem segir í fréttatilkynningu.

Hingað til hefur flug Icelandair til New York og Boston einnig verið merkt JetBlue og nú mun það einnig eiga um ferðir íslenska félagsins til nokkurra evrópskra staða, þar á meðal Amsterdam, Stokkhólms, Kaupmannahafnar og Glasgow.

Þessi nýjung er viðbót við samstarf sem hófst árið 2011 og hefur þróast í gegnum tíðina en farþegar Icelandair hafa aðgang að tengiflugi með JetBlue til fjölda áfangastaða í viðamiklu leiðakerfi félagsins. Meginbreytingin núna felst í því að viðskiptavinir JetBlue fá aðgang að fleiri ferðamöguleikum til Evrópu um Keflavíkurflugvöll.

„Við erum mjög ánægð með að útvíkka samstarfið við Icelandair og geta þannig boðið viðskiptavinum okkar fleiri kosti þegar þeir ferðast áfram til Evrópu um Ísland. Nýlega bættum við London Heathrow og London Gatwick við leiðakerfið okkar. Þetta aukna samstarf við Icelandair eykur enn möguleikana á flugi yfir Atlantshafið og gefur farþegum okkar tækifæri til að tengja eða stoppa á Íslandi á leið sinni til Evrópu,“ segir Robin Hayes, forstjóri JetBlue, í tilkynningu.

Þar er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að JetBlue og Icelandair séu um margt lík félög og geti boðið viðskiptavinum sambærilega upplifun alla leið á áfangastað.

Þess má geta að JetBlue hóf fyrr á þessu ári áætlunarflug til Evrópu, nánar tiltekið til London og ætlunin er að þotur félagsins muni einnig fljúga til Glasgow og Manchester frá og með næsta sumri.