Ekki fyrsta flugfélagið sem horfir til Eystrarsaltslandanna

Hluti af skrifstofuhaldi Play mun fara fram í Vilníus í Litháen. Mynd: Roxanne / Unsplash

Flugfélagið Play opnar í næsta mánuði skrifstofu í Vilníus í Litháen en þar ætlunin að ráða forritara og markaðsfólk til starfa. Segja má að Play feti með þessu í fótspor Icelandair Group því hluti af skrifstofuhaldi samsteypunnar hefur í mörg ár farið fram í Eistlandi. Primera Air, flugfélag Andra Más Ingólfssonar, gekk ennþá lengra árið 2014 og flutti nær alla starfsemi sína frá Reykjavík til Riga í Lettlandi.

Finna má fleiri dæmi um íslensk ferðaþjónustufyrirtæki og eins fyrirtæki í öðrum geirum sem hafa flutt hluta af skrifstofuhaldi sínu til landa þar sem laun eru lægri en þekkist hér á landi.

Drífa Snædal, forseti ASÍ, sem fyrr í dag gagnrýndi opnun útibús Play í Litháen, segir aðspurð um þessi þróun að það sé tími til kominn að fyrirtæki, sem njóti þess að vera á Íslandi, finni til ábyrgðar á því að starfa raunverulega á Íslandi.