Ekki nægjanlega tryggt að Gray Line versli áfram við Allrahanda Gray Line

airportexpress

Greiðsluskjóli ferðaþjónustufyrirtækisins Allrahanda Gray Line lauk í lok júní og þá lögðu forsvarsmenn fyrirtækisins fram frumvarp að nauðasamningi. Í dag hafnaði héraðsdómur að staðfesta þennan nauðasamning. Í úrskurði er meðal annars vísað til þess að færsla vörumerkis Gray Line, yfir í félagið GL Iceland, rýri eignir fyrirtækisins og geti valdið kröfuhöfum tjóni.

Er vísað til þess að ekki sé öruggt að GL Iceland geti ekki breytt fyrirliggjandi samningum um að kaupa alla akstursþjónustu af móðurfélaginu Allrahanda GL. Sama eigi við um samkomulag um að greiða allt að 98 prósent af hagnaði GL Iceland til móðurfélagsins fram til ársins 2024.

Forsvarsmenn Allrahanda Gray Line gáfu þær skýringar á stofnun systurfélagsins GL Iceland að alþjóðlegi rétthafi Gray Line vörumerkisins hafi ætlað að rifta samningi um notkun merkisins vegna fjárhagserfiðleika Allrahanda GL. En í stað þess að fara þá leið hafi rétthafinn fallist á að gera samning við hið nýja systurfélag sem eru í eigu sömu aðila.

Í dómi héraðsdóms segir hins vegar að ekkert liggi fyrir um þessi samskipti milli Gray Line International og Allrahanda GL.

Í viðtali við Vísi fyrr í dag þá segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda GL, að niðurstaða héraðsdóms væri vonbrigði og dómnum yrði áfrýjað. Þórir bætti því hins vegar við að hann væri sammála dómaranum um að bæta þyrfti samninginn milli Allrahanda GL og GL Iceland.