Fjórar nýjar borgir

Horft yfir Bologna en þangað flaug Iceland Express á sínum tíma og í sumar hefst áætlunarflug Play til borgarinnar. Mynd: Daniel Seßler / Unsplash

Flugfélagið Play hefur bætt fjórum áfangastöðum í Evrópu við sumaráætlun sína, Lissabon í Portúgal, Prag í Tékklandi, Bologna á Ítalíu og Stuttgart í Þýskalandi.

Í öllum tilvikum verður flogið tvisvar í viku, seinni part dags. Það er því aðallega horft til þess að Íslendingar og ferðamenn á leið til landsins nýti sér þessar ferðir að sögn Nadine Guðrúnar Yaghi, samskiptastjóra Play. Tímasetningarnar á fluginu henta verr fyrir tengifarþega þar sem lent er á Keflavíkurflugvelli um miðnætti. Farþegar á leið vestur um haf með Play þurfa þá að bíða rúman hálfan sólarhring eftir næstu ferð. Nadine bendir þó á að það sé ágætis fjöldi af fólki sem bókar tengiflug þrátt fyrir langar tengingar.

Play verður eitt um flugið héðan til Lissabon, Bologna og Stuttgart en í samkeppni við tékkneska flugfélagið Czech Airlines um farþega á leið frá Prag til Íslands.

Þetta verður jafnframt í fyrsta sinn sem í boði verður áætlunarflug frá Keflavíkurflugvelli til Lissabon en Íslandsflug frá Stuttgart var fastur liður í sumardagskrá Airberlin en það félag varð gjaldþrota árið 2017. Til Bologna komust Íslendingar beint með Iceland Express á sínum tíma og ítalska borgin naut vinsælda meðal íslenskra farþega þýska flugfélagsins Lufthansa eins og Túristi fjallaði um á sínum tíma.