Fleiri ferðir til Bandaríkjanna í lok mánaðar

Ferðir Icelandair til Boston verða ennþá tíðari í lok mánaðar. Mynd: Lance Anderson / Unsplash

Nú mega bólusettir Evrópubúar ferðast til Bandaríkjanna og þotur evrópskra flugfélaga hafa flogið þéttsetnar yfir Atlantshafið frá því að ferðabannið af afnumið í byrjun vikunnar. Þýska flugfélagið Lufthansa var til að mynda með fullfermi í þrjátíu ferðum til bandarískra borga á mánudaginn.

Til að mæta eftirspurn þá bætti Icelandair við ferðum til Bandaríkjanna í þessari viku líkt og Túristi hefur áður fjallað um. Og félagið hefur einnig bætt við brottförum til Boston og New York í lok nóvember. Það er viðbót við daglegar ferðir félagsins til borganna tveggja en í New York lenda þotur Icelandair bæði á JFK flugvelli og Newark.

„Strax frá fyrsta degi eftir að tilkynnt var um opnun bandarískra landamæra fyrir bólusetta Evrópubúa tókum við eftir aukningu í bókunum. Bókunarflæðið hefur haldist sterkt og gott, bæði frá Íslandi og Evrópu. Þessi opnun bandarískra landamæra er mjög mikilvæg fyrir okkar viðskiptamódel því nú er aftur opið á milli allra okkar markaðssvæða og við gerum ráð fyrir að þetta muni hafa mjög jákvæð áhrif á sætanýtingu í Ameríkuflugi á næstunni,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, í svari til Túrista.

Bandarísku flugfélögin Delta og United gerðu hlé á Íslandsflugi sínu í lok október og fram á vorið verður Icelandair því eitt um ferðir héðan til Bandaríkjanna. Næsta sumar stefnir mun meira framboð því þá ætlar Play að hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna og bæði bandarísku flugfélögin snúa aftur til Keflavíkurflugvallar.