Fresta gistináttaskatti til 2023

Fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar var kynnt í morgun.

Gistináttaskatturinn nemur 300 krónum á hverja gistieiningu. Dæmi um þess háttar einingu er útleiga á þessu herbergi á Icelandair hótelinu við Mývatn í eina nótt. Mynd: Icelandairhótelin

Tímabundin niðurfelling á gistináttagjaldi var meðal þeirra efnahagsaðgerða sem stjórnvöld gripu til þegar heimsfaraldurinn hófst í fyrra. Til stóð að gjaldið yrði tekið upp aftur nú um áramót og tekjur ríkissjóðs af gjaldtökunni yrðu 695 milljónir króna á næsta ári samkvæmt samþykktri fjármálaáætlun.

Í fjármálafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar, sem birt var í morgun, er aftur á móti lagt til að framlengja niðurfellingu á gistináttaskattinum til loka árs 2023. Er það gert í ljósi stöðu ferðaþjónustunnar eins og segir í frumvarpinu.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðuð endurskoðun á gistináttagjaldinu. Þar er þó ekki horft til þess að fella gjaldið niður heldur aðeins að sveitarfélög fái líka hluta af gjaldtökunni til sín. En líkt og Túristi fór yfir í gær er íslenska gistináttagjaldið að miklu leyti frábrugðið því sem þekkist til að mynda á meginlandi Evrópu. Á hinum Norðurlöndunum hefur gistináttaskattur ekki verið innleiddur.

Í tillögum Samtaka ferðaþjónustunnar að endurreisn atvinnugreinarinnar í kjölfar heimsfaraldurs er meðal annars lagt til að gistináttaskatturinn verði afnuminn. Eins og staðan er núna kemur hann þó til sögunnar á ný eftir tvö ár ef fjárlagafrumvarpið verður samþykkt óbreytt.


Þú færð aðgang að öllum greinum Túrista í 30 daga fyrir 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300″ þegar þú pantar áskrift. Í framhaldinu fullt mánaðarverð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.