Gengi evrópskra flugfélaga upp á við

Fjárfestar í Evrópu eru rólegri í dag en á föstudaginn gagnvart hlutabréfum í flugfélögum. MYND: GATWICK AIRPORT

Virði stærstu flugfélaga í Norður-Ameríku og Evrópu lækkaði umtalsvert fyrir helgi vegna óttans sem greip um sig vegna Ómíkrón-afbrigðis kórónveirunnar um heim allan. Í evrópskum kauphöllum lækkaði gengi stærstu flugfélaga álfunnar um allt að 15 prósent á föstudaginn.

Nú í byrjun nýrrar viðskiptaviku þá hefur gengi hlutabréfanna aftur á móti hækkað í flestum tilfellum. Gengi IAG, móðurfélags British Airways og fleiri félaga, hefur þannig hækkað um þrjá af hundraði. Hækkunin er álíka hjá þremur stærstu lággjaldaflugfélögum álfunnar; Ryanair, Wizz Air og Easyjet.

Gengi bréfa í Lufthansa samsteypunni og Air France-KLM Group hefur líka farið upp á við.

Í norrænum kauphöllum eru ekki allar tölur grænar því Finnair og SAS hafa lækkað í morgun á meðan Norwegian, Flyr og Icelandair hafa hækkað. Gengi Play stendur í stað í fyrstu viðskiptum dagsins.


Þú færð aðgang að öllum greinum Túrista í 30 daga fyrir 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300″ þegar þú pantar áskrift. Í framhaldinu fullt mánaðarverð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.