Halda niðri kostnaði með opnun útibús í Litháen

Flugfélagið Play mun opna nýtt útibú í Vilníus í Litháen í desember. Höfuðstöðvar félagsins verða þó áfram á Íslandi, auk allra áhafna og flugreksturs.

„Play etur kappi við flugfélög sem hafa lágan kostnaðargrundvöll og aðgengi að sérþekkingu á alþjóðlegum markaði. Það er því nauðsynlegt fyrir Play að geta mætt þeim sem jafningjum. Hugsunin er sú að halda niðri kostnaði og lágmarka yfirbyggingu svo hægt sé að bjóða lág fargjöld í hörðu samkeppnisumhverfi. Opnun skrifstofunnar í Vilníus er mikilvægt skref í þá átt að tryggja lágan kostnaðargrundvöll Play á sama tíma og félagið hefur starfsemi beggja vegna Atlantshafsins og undirbýr framtíðarvöxt,“ segir í tilkynningu

Þar segir jafnframt að starfsmenn Play í Litháen munu sinna ýmsum stoð- og tæknihlutverkum. Þegar er búið að ráða stöðvarstjóra og framundan er að ráða í aðrar stöður á skrifstofunni. Reiknað er með að fimmtán til tuttugu manns muni starfa á skrifstofu Play í Vilníus innan fárra mánaða.

Þess má geta að Primera Air flutti stóra hluta af starfsemi sinni frá Íslandi á sínum tíma til Litháen.