Jens tekur við af nafna sínum

Mynd: Vancounver Airport

Jens Bjarnason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Icelandair Group að því fram kemur í tilkynningu til Kauphallarinnar. Staðan hefur verið laus síðan Jens Þórðarson óskaði eftir að láta að störfum hjá flugfélaginu í september síðastliðnum.

Jens Bjarnason þekkir vel til starfsins enda gegndi hann þessari sömu stöðu á árunum 2015 til 2018 en starfsferill hans hjá Icelandair hófst árið 1984. Hann tók þó hlé frá störfum sínum hjá flugfélaginu á árunum 2011 til 2015 þegar hann vann fyrir IATA, alþjóðasamtök flugfélaga.

Jens leiddi líka Cabo Verde Airlines á sínum tíma en Icelandair Group keypti stóran hlut í því félagi árið 2019. Ríkisstjórn Grænhöfðaeyja þjóðnýtti flugfélagið í sumar.

Ennþá hefur Icelandair ekki tilkynnt hver tekur við af Birnu Ósk Einarsdóttur sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair. En Birna sagði upp hjá félaginu í síðasta mánuði.