Lengri bið á bandarískum flugvöllum

Stjórnendur United flugfélagsins gera ráð fyrir að um 30 þúsund farþegar fljúgi með félaginu til Bandaríkjanna næsta sólarhring. Það er helmingi fleiri en fyrir viku síðan. Mynd: United Airlines

Frá og með deginum í dag verður bólusettum ferðamönnum heimilt að ferðast til Bandaríkjanna. Þar með verður endi bundinn á bann sem Donald J. Trump, þáverandi Bandaríkjaforseti, setti á ferðir íbúa þrjátíu og þriggja landa til Bandaríkjanna í mars í fyrra. Náði bannið meðal annars allra ríkja Schengen-svæðisins, Bretlands, Kína og Indlands.

Eftirspurn eftir flugi til Bandaríkjanna tók mikinn kipp þegar tilkynnt var um breytingar á reglunum og útlit er fyrir að þoturnar sem lenda á bandarískum flugvöllum næstu daga verði þéttsetnar.

Samkvæmt frétt Reuters gera stjórnvöld vestanhafs því ráð fyrir lengri bið en vanalega í komusölum flugstöðva þar í landi þrátt fyrir að starfsfólki í landamæravörslu hafi verið fjölgað. Skýringin er sú að nú þarf að skoða bólusetningarvottorð allra farþega og eins niðurstöður úr nýju Covid-19 prófi.

Frá Keflavíkurflugvelli fara fimm þotur í dag til Bandaríkjanna og eru þær allar á vegum Icelandair.