Lítillega betri horfur fyrir næsta ár

Seðlabankinn gerir nú ráð fyrir 1,5 milljón ferðamanna á næsta ári. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Sérfræðingar Seðlabankans spá því að fjöldi erlendra ferðamanna í ár verði 720 þúsund sem er aukning um fjörutíu þúsund túrista frá spá bankans í ágúst. Þetta kemur fram í nýrri útgáfu Peningamála.

Þar hækkar Seðlabankinn líka spá sína fyrir næsta ár upp í eina og hálfa milljón ferðamanna. Er vísað til þess að vísbendingar gefi til kynna að batinn í ferðaþjónustunni verði hraðari en áður var talið en ástandið er þó ennþá viðkæmt að mati bankans.

„Þannig hefur leitum að hótelum og flugi til Íslands á leitarvél Google t.d. fjölgað frá því í sumar og nálgast sambærilegan fjölda og fyrir faraldurinn. Þá eru horfur á að alþjóðlegt farþegaflug sæki í sig veðrið á næstu misserum í kjölfar þess að bólusettum ferðamönnum er orðið heimilt að ferðast til Bandaríkjanna í fyrsta sinn síðan í mars í fyrra. Útlit er því fyrir að skiptifarþegum gæti fjölgað á ný þegar líður á veturinn. Horfur eru því einnig lítillega betri fyrir næsta ár en talið var í ágúst og áætlað er að fjöldi erlendra ferðamanna verði um 1,5 milljón sem er heldur meira en gert var ráð fyrir í ágústspá bankans en í takt við það sem talið var í maí. Óvissa er þó enn til staðar um horfur í ferðaþjónustu um allan heim og gæti bakslag í viður- eigninni við farsóttina sett þessar áætlanir í uppnám. Þá gæti hækkun olíuverðs leitt til hærri flugfargjalda næstu misseri sem dregið gætu úr ferðavilja almennings,“ segir í Peningamálum Seðlabankans fyrir nóvember.


Viltu prófa áskrift að Túrista? Þú færð 30 daga áskrift á 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300“ þegar þú pantar áskrift. Fullt verð í framhaldinu (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.