Myndin af kortaveltu erlendra ferðamanna hefur skekkst

Greiðslukort eru notuð í auknum mæli innan ferðaþjónustunnar. Það hefur sín áhrif á kortaveltu á hvern ferðamann líkt og Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, fer hér yfir í innsendri grein.

„Ljóst er einnig að kaupmáttur erlendra ferðamanna hefur ekki aukist jafn mikið og tölur RSV gefa til kynna," segir Þórir Garðarsson.

Fullyrða má að erlend kortavelta gefi ekki lengur sömu mynd og áður af eyðslu erlendra ferðamanna hér á landi. Fyrir því eru ýmsar ástæður, svo sem að erlend sölufyrirtæki eru í vaxandi mæli farin að notað greiðslukort til að gera upp við íslensk ferðaþjónustufyrirtæki í stað þess að millifæra í banka.

Þá hefur notkun peningaseðla snarminnkað. Verulegur samdráttur hefur einnig orðið í deilihagkerfinu og þau viðskipti færst yfir til fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þetta þýðir að velta með erlendum kortum eykst en á móti dregur úr bankamillifærslum. Tekjurnar hafa þó ekkert endilega aukist.

Við sjáum þetta mjög skýrt hjá Gray Line. Eftir að heimsfaraldurinn skall á 2020 var samningum breytt á þann veg að mörg erlend sölufyrirtæki greiða nú með greiðslukortum. Þessi þróun er skiljanleg, vegna þess að greiðslukortin eru að flestu leyti þægilegri og öruggari í viðskiptum milli landa. Áhættan er minni, tæknin betri og þægilegri og greiðslurnar skila sér hraðar en með bankamillifærslu.

Greiðslukortin segja ekki sömu söguna

Þessi tilfærsla fyrirtækjaviðskipta yfir í greiðslukort segir hins vegar ekkert um kortanotkun erlendra ferðamanna eftir að þeir eru komnir hingað. Þeir áttu þessi viðskipti í heimalandi sínu, ekki hér á landi. Þessi viðskipti gefa heldur ekki rétta mynd af eyðslu eftir þjóðernum þar sem viðskipti erlendra söluaðila eru landamæralaus. Viðskiptavinir eru ekkert endilega frá því landi sem greiðslan kemur frá.

Dæmi um þetta er erlent sölufyrirtæki sem er með samning við Icelandair um vefsölu íslenskra afþreyingaferða þar sem t.d. bandarískir ferðamenn eru mjög stórir kaupendur. Greiðslur frá þessum söluaðila koma hins vegar frá Sviss og eru því væntanlega skráðar á svissneska ferðamenn, en koma í raun að verulegu leyti frá bandarískum ferðamönnum. Sama má segja um nokkur önnur stór alþjóðleg sölufyrirtæki sem gera upp í gegnum breskt fyrirtæki. Greiðslur þeirra til íslenskra fyrirtækja eru þar af leiðandi skráðar á breska ferðamenn, þó svo að kaupendur þjónustunnar komi víða að úr heiminum.

Skuggahagkerfið

Stærsta breytan er sennilega samdrátturinn í deilihagkerfinu sem ég kýs að kalla skuggahagkerfið. Þar er tekjuskráningu verulega ábótavant og skattasniðganga hefur verið umtalsverð í gegnum árin. Með stærstu söluaðilum í deilihagkerfinu er Airbnb sem hefur verið að selja gistiþjónustu á íslandi sem og ýmsa afþreyingu. Samkvæmt fréttum fækkaði leigurýmum Airbnb á höfuðborgarsvæðinu um rúmlega þrjúþúsund á síðustu þremur árum. Reikna má með að þessi fækkun á framboði í deilihagkerfinu færist yfir í betri nýtingu og meiri tekjum í gistiþjónustu, bílaleigum og hjá afþreyingarfyrirtækjum. Þær tekjur eru uppi á borðum.

Skakka myndin

Erfitt er að geta sér til um hve mikil þessi breyting á greiðslufyrirkomulaginu er í krónum talið. Miðað við það sem ég þekki til þá eru þetta meira en nóg til að skekkja myndina af kortanotkun erlendra ferðamanna og tekjum af þeim hér á landi. Full ástæða er fyrir Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) að taka þessa þróun inn í myndina í útgefnum tölum. Ljóst er að 2019 og 2021 eru ekki fyllilega samanburðarhæf þegar kemur að því að reikna út breytingar í kortanotkun eða tekjur af erlendum ferðamönnum á Íslandi.

Ljóst er einnig að kaupmáttur erlendra ferðamanna hefur ekki aukist jafn mikið og tölur RSV gefa til kynna. Hafa þarf í huga að frá 2019 hefur krónan veikst, um 9% gagnvart evru og um 14% gagnvart sterlingspundi. Erlendir ferðamenn fá því meira fyrir gjaldeyririnn sinn en áður.

Meiri tekjur í ríkissjóð

Það er engin spurning að fyrirtæki í ferðaþjónustu fagna þessu, kaupmáttur ferðamanna eykst við veikingu krónunnar. Greiðslur berast nú fyrr og þær berast örar, auk þess sem öryggi er meira. Það sem meira er, tekjur ríkissjóðs aukast enn meira við að sala fer úr erlendu deilihagkerfi inn í veltu íslenskra fyrirtækja.

Þórir Garðarsson
Stjórnarformaður Gray Line


Þú færð aðgang að öllum greinum Túrista í 30 daga fyrir 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300″ þegar þú pantar áskrift. Í framhaldinu fullt mánaðarverð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.