Panta 196 Airbus þotur

Wizz Air nýtir A321neo þotur meðal annars í nýrri starfstöð sinni í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Mynd: Wizz Air.

Stjórnendur ungverska flugfélagsins Wizz Air gengu í gær frá pöntun á 102 Airbus A321neo þotum. Þar á meðal eru 27 eintök af hinni langdrægu A321neo XLR. Stærsti hluti flugvélanna verður afhentur á árunum 2025 til 2027.

Wizz Air tryggði sér jafnframt forkaupsrétt á 94 þotum til viðbótar sem yrðu þá tilbúnar undir lok áratugarins. Í heildina er ungverska flugfélagið þá með pantaðar 429 nýjar flugvélar hjá Airbus.

József Varadi, forstjóri Wizz Air, segir í tilkynningu að nýju Airbus A321 þoturnar geri flugfélaginu kleift að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um fjórðung fyrir árið 2030 enda séu nýju flugvélarnar spartneyttari en þær sem fyrir eru. Flugfloti Wizz Air er þó ungur miðað við það sem gerist og gengur í fluggeirnum því meðalaldur flugvélanna er 5,1 ár eins og staðan er í dag. Til samanburðar eru Boeing 757 þoturnar sem Icelandair notar framleiddar í byrjun aldarinnar.

Wizz Air hefur frá falli Wow Air verið umsvifamesta flugfélagið á Keflavíkurflugvelli og býður í dag upp á flug þaðan til 12 evrópskra borga. Næsta sumar bætast Feneyjar á Ítalíu við þann lista.