Play hækkar farangursgjöldin

Þegar Play hóf að selja farmiða nú í vor þá þurfti að borga á bilinu 3.400 til 4.600 krónur fyrir að innrita hefðbundna ferðatösku í flug með félaginu. Nú hefur töskugjaldið hækkað og er 3.528 kr. á stystu flugleiðunum en 5.083 krónur á lengstu leiðunum.

Það bætast því rúmar tíu þúsund krónur við fargjaldið hjá Play til Tenerife og heim aftur ef farþegi vill taka með sér tösku.

Farþegar lágfargjaldafélagsins verða einnig að borga meira fyrir handfarangur í dag en áður eða að lágmarki 2.869 kr. og að hámarki 4.089 kr. Þeir sem kaupa þessa þjónustu fá að fara á undan öðrum farþegum um borð í þotur félagsins fyrir brottför.

Farþegar sem ferðast með handfarangurstöskur sem komast undir sætin borga ekki aukalega fyrir þær.

Hjá Icelandair er ekkert handfarangursgjald en aftur á móti þurfa þeir sem kaupa ódýrustu miðana, Economy Light, að borga 5.280 fyrir innritaðan farangur.

Spurð um skýringar á þessum hækkunum þá segir Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri Play, að breytingin liggi í verðstýringu á þessum svokölluðum hliðartekjum flugfélagsins. Gjöldin eru mismunandi eftir eftirspurn á hverjum tíma og hvenær er bókað og svo framvegis. Töskugjaldið til Alicante er þannig lægra í janúar og febrúar en á hánnatíma.

Uppfærsla: Svari Play hefur verið bætt við upprunalegu útgáfu fréttarinnar.