Segir líka þörf á gæðagistingu við flugvelli

Hjónin Steinþór Jónsson og Hildur Sigurðardóttir í nýju Versace móttökunni á Hótel Keflavík og Diamond Suites. Aðsend mynd

Það var fullbókað bæði á Hótel Keflavík og fimm stjörnu Diamond Suites í september og Steinþór Jónsson, sem hefur rekið hótelið ásamt fjölskyldu sinni í 35 ár, skrifar þann góða árangur að hluta til á að hafa aldrei lokað á gestina í heimsfaraldrinum.

„Með því að hafa opið tókst okkur bæði að ná betri rekstrarárangi og halda í föstu viðskiptavinina sem hefðu annars ekki átt í önnur hús að vernda. Þú berð líka ákveðna ábyrgð að þjóna flugvellinum þó á móti blási tímabundið. Ég er persónulega stoltur af okkar áherslum og árangri með að auka gæðin verulega á þessum óvissutímum og fjárfesta frekar en að leggjast í kör,” útskýrir Steinþór.

Hann bendir jafnframt á að auking herbergjanýting núna tengist uppbyggingu hótelsins síðustu ár. 

„Eftirspurn eftir gæðum hefur margfaldast. Fólk leitar nú mikið oftar eftir lúxus hóteli með góðum veitingastað frekar en stöðluðum flugvallarhótelum enda eðlilegt að vilja gera vel við sig við komu eða brottför hverjar ferðar. Opnun lúxus veitingastaðarins, KEF Restaurant, sem stenst fullan samanburð við bestu veitingastaði í miðborg Reykjavík, var svo ákvörðun sem skilaði þeim auka tekjum sem við þurftum til að ná að skila hagnaði á síðasta ári. Þegar hótelgestir voru færri fylltu bæjarbúar þau 150 sæti sem í boði voru og fleyttu okkur yfir erfiðasta hjallann. Tenging nafnsins við KEF gerði svo restina og mun gera það áfram,” segir Steinþór og vísar í tenginguna við Keflavíkurflugvöll.

Spurður hvort Íslendingar á leið í millilandaflug séu stækkandi kúnnahópur nú þegar landinn er farinn að streyma til útlanda á ný þá segir Steinþór að svo sé. 

„Komur og brottfarir árla dags á Keflavíkurflugvelli hafa án efa aukið eftirspurnina og það mun koma betur í ljós þegar fleiri flugfélög auka ferðir til Íslands. Þá er mikilvægt að þjónustan sé til staðar allan sólarhringinn og þar ætlum við okkur stóra hluti.”

Steinþór bendir jafnframt á að nálægðin við Keflavíkurflugvöll gagnist hótelum á Suðurnesjum á fleiri vegu. 

„Það voru herhópar á landinu í haust sem gistu á hótelum hér í kring sem buðu oft mjög lágt verð. Það næst oft ekki góð nýting nema með því að bjóða afslætti sem þessir hópar geta nýtt sér,” segir Steinþór að lokum.