Þotur lágfargjaldafélaganna að fyllast á ný

Nú gengur stjórnendum Ryanair betur að fylla flugvélarnar en áður. Mynd: Ryanair

Eitt af því sem einkennir flugfélög sem kenna sig við lág fargjöld er að þar er sætanýtingin vanalega nokkru hærri en hjá hefðbundnum flugfélögum. Með því að halda óseldu sætunum í lágmarki þá geta flugfélög eins og Ryanair og Wizz Air boðið ódýrari farmiða en keppinautarnir.

Sætanýtingin hjá þessum flugfélögum var því vanalega yfir níutíu prósent fyrir heimsfaraldur.

Síðustu misseri hefur staðan verið önnur og tómu sætin miklu fleiri en áður. Nú í október var sætanýtingin hjá Ryanair þó hærri en hún hefur verið lengi og fór hún upp í 84 prósent. Hjá Wizz Air voru átta af hverjum tíu sætum seld.

Hið norska Norwegian, sem er stærsta lággjaldaflugfélag Skandinavíu, náði 83 prósent nýtingu sem er mikil bæting frá fyrri mánuðum.

Von er á farþegatölum Icelandair og Play í byrjun næstu viku.