Tíðari flugferðir og mögulega fleiri áfangastaðir

Það er erfitt fyrir flugið að keppa við niðurgreiddar ferjusiglingar og rútuferðir að mati Harðar Guðmundssonar stofnanda Ernis.

„Við getum keppt við hvern sem er en þá þurfa reglurnar einfaldlega að vera þær sömu fyrir alla," segir Hörður. Mynd: Sigurður Bogi Sævarsson / Morgunblaðið

Ernir fjölgaði ferðunum til Húsavíkur um fjórar í viku nú í byrjun október. Þar með býður flugfélagið upp á tvær brottfarir á dag, alla virka daga nema föstudaga. Hörður Guðmundsson, forstjóri og stofnandi, Ernis segir vísbendingar um að tíðari ferðir hafi þegar skilað sér í fjölgun farþega. Nýjasta Covid-19 bylgjan hafi þó haft neikvæð áhrif á eftirspurn. „Um leið og hert á sóttvarnarreglum þá snarfækkar bókunum,” segir Hörður.

Flugið til Húsavíkur er á viðskiptalegum forsendum á meðan ferðir Ernis til Hornafjarðar eru styrktar af hinu opinbera. Ernir flaug áður til Vestmannaeyja og líka Bíldudals og Gjögurs en eftir útboð Vegagerðarinnar, á ferðunum vestur, þá missti félagið þá flugleið. 

„Úrskurðarnefnd kærumála komst að þeirri niðurstöðu að ríkið hefði brotið á okkur við úthlutunina. Ég hef hins vegar ekki tíma í að fara í margra ára málaferli út af þessu enda orðinn 75 ára,” bendir Hörður á. En þrátt fyrir aldurinn þá tekur hann ennþá virkan þátt rekstri flugfélagsins sem hann stofnaði ásamt Jóníunu Guðmundsdóttur, eiginkonu sinni, fyrir fimmtíu og einu ári síðan. 

Ríkið rukkar flugfélögin en niðurgreiðir aðra samgöngumáta

Það voru hins vegar ekki útboðsmál heldur minnkandi eftirspurn sem urðu til þess að áætlunarflugið til Vestmannaeyja lagðist af. Og það mat Harðar að erfitt sé fyrir flugfélögin að keppa við Herjólf. 

„Við vorum búin að halda úti flugi til Eyja í tíu ár en þegar Covid-faraldurinn skall á þá fækkaði farþegum mjög mikið. Það hefur líka mikil áhrif að ferjan er niðurgreidd að miklu leyti og flugið ræður ekkert við þá samkeppni. Tilraun Icelandair til að fljúga á þessari leið í sumar endaði til að mynda fyrr en lagt var upp með. Staðreyndin er sú að það sem Isavia rukkar flugfélögin í alls kyns gjöld er mörgum sinnum meira en sem nemur fargjaldinu hjá Herjólfi. Eyjamenn borga til að mynda 800 krónur fyrir farið með ferjunni en aðrir tvöfalt meira. Á sama tíma þurfa flugfélögin að borga mörg þúsund krónur á hvern farþega í skatta og gjöld og fyrir leigu á aðstöðu í flugstöðvum ríkisins. Flugfélagið sjálft á svo eftir að fá inn fyrir sínum kostnaði. Það skiptir í raun engu máli hvort þú ert  að fljúga með tóma vél eða fulla því ríkið, í gegnum Isavia, tekur alltaf sitt. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að flugið er óþarflega dýrt miðað við aðra samgöngumáta, t.d. strætó og rútur þar sem farmiðinn er líka niðurgreiddur af ríkinu.” 

Fjölbreytt verkefni á borði flugfélagsins

Þó áætlunarflug frá Reykjavíkurflugvelli sé kjarninn í rekstri Ernis þá eru verkefnin fjölbreytt. Hörður segir flugfélagið í raun vera innviðafyrirtæki sem sinni alls kyns verkefnum. Fljúgi til að mynda eftir varahlutum í álver, ferji hópa ferðamanna út á land og sinni verkefnum fyrir Netflix og Sinfóníuna svo nokkur dæmi séu nefnd. Auk alls þessa þá sér Ernir um sjúkraflug út fyrir landsteinana og flýgur því reglulega með sjúklinga til Svíþjóðar. 

Útilokar ekki nýja áfangastaði

Hörður segist líta björtum augum til framtíðar og ætlunin sé að efla flugfélagið á næstunni líkt og tíðari ferðir til Húsavíkur eru dæmi um. Hann útilokar heldur ekki að Ernir muni blanda sér í baráttuna á fleiri stöðum en nú er. Til að mynda með þátttöku í útboði á ferðum til Vopnafjarðar og Þórshafnar ef heimilt verður að sinna þeim frá Reykjavík líkt og Vegagerðin var með til skoðunar en hætti við. Eins telur Hörður ljóst að ríkið þurfi fyrr en síðar að koma að fluginu til Ísafjarðar og þá opnist möguleiki fyrir flugfélagið.

„Við höfum verið þæg og góð síðustu 50 ár og höfum verið með sömu kennitöluna allan þann tíma. Önnur félög hafa skipt nafn eða kennitölu á þessum tíma en eigna sér samt flugsöguna. Við getum keppt við hvern sem er en þá þurfa reglurnar einfaldlega að vera þær sömu fyrir alla,” segir Hörður að lokum.