Tripadvisor leitar að nýjum forstjóra

SKJÁMYND AF VEF TRIPADVISOR

Í byrjun þessarar aldar snérust umsvif Tripadvisor um að miðla umsögnum ferðalanga um hótel og veitingastaði. Þessi bandaríska vefsíða er hins vegar fyrir löngu orðið mjög stórtæk í miðlun á gistingu, flugi og öðru því sem fólk þarf að bóka í tengslum við ferðalög.

Fyrirtækið keypti til að mynda íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Bókun árið 2018 en það fyrirtæki rekur sölu- og birgðakerfi sem er mikið notað af íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum.

Þessari miklu umbreytingu á Tripadivsor hefur Steve nokkur Kaufer stýrt en hann er jafnframt einn af stofnendum vefsíðunnar. En nú hefur Kaufer óskað eftir því að láta af störfum. Eftirmaður hans hefur ekki verið ráðinn en samkvæmt tilkynningu frá Tripadvisor er stefnt á að forstjóraskiptin fari fram í byrjun næsta árs.