Vægi íslenskra farþega upp á við

Í ágúst voru Íslendingar rétt um tíund af þeim hópi fólks sem innritaði sig í flug í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í nýliðnum október fór hlutfall heimamanna hins vegar upp í 27,7 prósent samkvæmt frétt á vef Ferðamálastofu. En stofnunin hefur bryddað upp á þeirri nýbreytni að birta þjóðernaskiptingu farþega á Keflavíkurflugvelli strax í byrjun hvers mánaðar.

Tölur Isavia um fjölda farþega liggja hins vegar fyrst fyrir í byrjun annarrar viku hvers mánaðar. Þá sést hversu margir ferðamennirnir voru.

Þetta aukna vægi íslenskra farþega er í takt við spá sem Isavia sendi á þau fyrirtæki sem eru með verslunar- og veitingarekstur í Leifsstöð nú í lok sumars.