99 krónum ódýrari en Wow Air

washington hvitahusið David Everett Strickler
Frá og með vorinu munu bæði þotur Icelandair og Play lenda í nágrenni við Washington, höfuðborg Bandaríkjanna. Mynd: David Everett Strickler

Fyrr í dag opnaði Play fyrir sölu á daglegu áætlunarflugi til bandarísku borganna Boston og Washington. Þetta eru sömu áfangastaðir og urðu fyrir valinu hjá stjórnendum Wow Air þegar það félag hóf flug vestur um haf sumarið 2015.

Miðasala Wow hófst reyndar fyrr eða þann 22. október árið 2014 og þá kostuðu ódýrustu miðarnir til Bandaríkjanna 14.999 krónur, aðra leið.

Hjá Play eru lægstu fargjöldin aftur á móti aðeins ódýrari því hægt er að fá miða til bæði Boston og Washington á 14.900 krónur. Við þessi fargjöld bætist svo gjald fyrir bæði innritaðan farangur (4.675 kr.) og handfarangur (3.570 kr.) og þannig var það líka hjá Wow Air.

Lægstu fargjöldin hjá Play í dag eru um helmingur af því sem borga þarf fyrir ódýrustu miðana með Icelandair til fyrrnefndra borga í vor.

Farið með Icelandair til Boston í vor kostar að lágmarki 31.475 krónur ef keyptur er miði báðar leiðir. Borga þarf 30.775 kr. ef ferðinni er heitið til Washington og lent á Baltimore-Washington flugvelli. Play nýtir einmitt þann flugvöll fyrir sínar ferðir til Washington. Fargjaldið hjá Icelandair er svo um tíund hærra ef farþeginn velur flug til Washington Dulles flugvallar. Sá er álíka langt frá bandarísku höfuðborginni og flugvöllurinn sem kenndur er við Baltimore.