Allt flug til og frá landinu á áætlun

Um sex þúsund flugferðum hefur verið aflýst á heimsvísu nú yfir hátíðarnar. Ástandið skrifast aðallega á manneklu þar sem áhafnir og annað starfsfólk flugfélaga hefur boðað forföll vegna kórónuveirusmita eða sóttkvíar.

Hér á landi eru um níu þúsund manns í sóttkví eða einangrun vegna Covid-19 en flugáætlanir íslensku flugfélaganna hafa þó ekki riðlast.

„Við höfum enn sem komið er ekki þurft að aflýsa vegna manneklu nú yfir hátíðirnar. Það voru til dæmis 14 brottfarir í morgun og allar á áætlun. Gengur vonandi vel áfram en við þurfum auðvitað ávallt að vera viðbúin á þessum síbreytilegu tímum,“ segir Ásdís Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í svari til Túrista.

Nadine Guðrún Yaghi hjá Play segir að þar hafi komið upp einstök smit á meðal áhafnameðlima en það hafi ekki haft nein áhrif á starfsemina.

Íslandsflug erlendra flugfélaga er líka á áætlun í dag samkvæmt heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Í heildina eru á dagskrá fjörutíu og ein brottför frá landinu í dag og þar af eru þrettán á vegum erlendra flugfélaga.