Bandarísk stjórnvöld með strangari reglur í bígerð

Það eru rétt fjórar vikur frá því að Bandaríkin opnuðu á ný. MYND: NEONBRAND / UNSPLASH

Bandaríkin opnuðu landamæri sín að mestu þann 8. nóvember en þó með þeim takmörkunum að eingöngu þeir sem eru fullbólusettir fá að ferðast til landsins. Farþegar verða einnig að framvísi neikvæðum niðurstöðum úr Covid-19 prófi við komuna til landsins. Þær niðurstöður mega ekki vera eldri en þriggja sólarhringa samkvæmt reglunum eins og þær eru í dag.

Nú er hins vegar til skoðunar vestanhafs að herða reglurnar og krefjast þess að fólk framvísi niðurstöðum sem eru í mesta sólarhrings gamlar. Skýringin liggur í útbreiðslu ómíkrón-afbrigðisins.

Þetta yrði þó ekki eina breytingin sem er á pípunum því samkvæmt frétt Reuters er einnig horft til þess að fara fram á að allir ferðamenn fari í annað próf þremur til fimm dögum eftir komuna til Bandaríkjanna. Í dag þurfa eingöngu óbólusett börn í þess háttar próf.

Gert er ráð fyrir að bandarísk stjórnvöld kynni þessar nýju reglur á morgun en ekki liggur fyrir hvenær þær ganga í gildi að því segir í frétt Reuters.


Þú færð aðgang að öllum greinum Túrista í 30 daga fyrir 300 krónur með því að nota afsláttarkóðann „300″ þegar þú pantar áskrift. Í framhaldinu fullt mánaðarverð (2.650 kr.) en alltaf hægt að segja upp.